Póstlisti
Skráđu netfangiđ ţitt og fáđu tilkynningar sendar í tölvupósti
Nafn
Afskrá

 

 

The History of Reykjavik Open

(1964-2012)

Year Winner Players
I 1964 Mikhail Tal 14
II 1966 Friðrik Ólafsson 12
III 1968 Evgení Vasjukov og Mark Taimanov 15
IV 1970 Guðmundur Sigurjónsson 16
V 1972 Friðrik Ólafsson, Florian Georghiu og Vlastimil Hort    16
VI 1974 Vasily Smyslov 15
VII 1976 Friðrik Ólafsson og Jan Timman 16
VIII 1978 Walter Browne 14
IX 1980 Kupreichik 14
X 1982 Lev Alburt 54
XI 1984 Jóhann Hjartarson, Helgi Ólafsson og Samuel Reshevsky 60
XII 1986 Predrag Nikolic 74
XIII 1988 Jón L. Árnason 54
XIV 1990 Helgi Ólafsson, Jón L. Árnason, Sergei Dolmatov, Lev Polugaevsky, Rafael Vaganjan, Yasser Seirawan, Nick DeFirmian,Yuri Rasuvajev og  Erling Mortensen 72
XV 1992 Jóhann Hjartarson og Alexei Shirov 12
XVI 1994 Hannes Hlífar Stefánsson, Zvaginsev og Pigusov 62
XVII 1996 Simen Agdestein, Jonathan Tisdall og Predreg Nikolic 64
XVIII 1998 Larry Christiansen 66
XIX 2000 Hannes Hlífar Stefánsson 76
XX 2002 Jaan Ehlvest og Alexei Korneev 72
XXI 2004 Alexey Dreev, Vladimir Epishin, Emil Sutovsky, Jan Timman, Levon Aronjan, Igor Nataf, Jaan Ehlvest og Robert Markus 77
XXII 2006 Gabriel Sargissian, Ahmed Adly, Shakhriyar Mamedyarov, Igor-Alexandre Nataf og P Harikrishna 103
XXIII 2008 Hannes Hlífar Stefánsson, Wang Hao og Wang Yue 91
XXIV 2009 Héðinn Steingrímsson, Hannes Hlífar Stefánsson og Yuriy Kryvoruchko    110
XV 2010 Hannes Hlífar Stefánsson, Ivan Sokolov, Yuriy Kuzubov, Abhijeet Gupta 104
XVI 2011 Yuriy Kuzubov, Ivan Sokolov, Vladimir Baklan, Kamil Miton, Jon Ludvig Hammer and Illya Nyzhnyk

166

XVII 2012 Fabiano Caruana 198

Games and tournament tables

With the following link you can download almost all games (7662) that have been played in Reykjavik Open from start.  The games are in ChessBase format and can be opened with that program or the free ChessBase Reader ( http://www.fritzload.com/download/cbreadersetup.exe ). In the tournament tab you can even click on single event and get the crosstable.

Click here to download all games from Reykjavik Open from I to XVII

Statistics
(Reykjavik Open I to XVI)

Most tournaments:  Helgi Olafsson(15), Throstur Thorhallsson(15) and Hannes Hlifar Stefansson(15)
Most tournaments - foreign players: Tiger Hillarp Persson Sweden (9), Nick DeFirmian USA (7), Heikki Westerinen FIN (7), Ivan Sokolov NED (6), Jan Ehlvest (6)
Most games: Helgi Olafsson (158), Throstur Thorhallsson (141), Hannes Hlifar Stefansson (137)
Nationality: Iceland (182), USA(60), Germany(59), Sweden(41), Norway(34), England(34)
Total chessplayers who have played in Reykjavik Open: 731
Total participants:  1449

.

.

Short articles in Icelandic from all Reykjavik Open tournaments

Stutt yfirlit yfir mót 1-21

I.

Fyrsta Reykjavíkurskákmótið var tileinkað minningu Péturs Zóphóníassonar og fór fram í Lídó. Í þá tíð rak Þorvaldur Guðmundsson þar veitingahús sem þótti eitt hið besta í borginni. Víst er að skákmenn höfðu ekki áður teflt í veglegri húsakynnum á Íslandi. Skákstjóri var Áki Pétursson, sonur Péturs Zóphóníassonar.

 

Við þessi tímamót var ekki ráðist á garðinn þar sem hann var lægstur. Mikael Tal og Svetozar Gligoric voru í broddi fylkingar á mótinu. Keppendur voru alls 14 og erlendu þátttakendurnir 5 talsins. Auk þeirra Tals og Gligoric voru þau Nona Gaprindashvili, heimsmeistari kvenna í skák frá Sovétríkjunum, Svein Johannessen frá Noregi og Robert Wade frá Englandi. Það er skemmst frá því að segja að Tal vafði bæði keppendum og áhorfendum um fingur sér, ekki einungis með leiftrandi taflmennsku heldur einnig með ómótstæðilegum persónutöfrum.

 

Í 12. umferð mættust þeir Friðrik Ólafsson og Tal og var þá margt um manninn í Lídó og spenna í lofti. Friðrik hafði hvítt og tefldi til vinnings, sótti stíft, en Tal varðist vel. Þar kom að erkióvinur Friðriks, tímahrakið, varð honum að falli.

 

Guðmundur Arnlaugsson ritaði svo í Tímaritið Skák frá þessum tíma: „Þetta Reykjavíkurskákmót var gott skákmót, myndarlega úr garði gert og skemmtilegt áhorfendum. Það gerðust áhrifamikil ævintýri á hverju kvöldi, svo var skákmönnunum fyrir að þakka, bæði erlendum og innlendum."

 

 

 

II.

 

Nú voru 2 ár liðin frá fyrsta Reykjavíkurskákmótinu og ákveðið að efna til þess næsta sem fór aftur fram í Lídó. Mótið var „tileinkað 40 ára afmæli Skáksambands Íslands og sérstaklega fyrsta forseta sambandsins Ara Guðmundssyni“ eins og segir í mótsskrá.

 

Erlendir keppendur voru nú 5 talsins, en ekki eins sterkir og á fyrra móti. Friðrik Ólafsson hélt uppi merki landsns og sigraði örugglega, en Guðmundur Pálmason og Freysteinn Þorbergsson stóðu sig einnig mjög vel.

 

Skákstjóri var nú Guðmundur Arnlaugsson, sem upp frá því átti eftir að setja sterkan svip á framkvæmd Reykjavíkurmótanna. Guðmundur var jafnan sá bakhjarl sem til margra ára veitti mótunum blæ virðuleika og festu.

 

 

III.

Taflfélag Reykjavíkur sá um framkvæmd þessa móts með miklum myndarbrag. Nú var teflt í Tjarnarbúð og mótið helgað minningu Íslandsvinarins Willard Fiske. Skákir voru skýrðar á annarri hæð hússins og var þar oft margt um manninn og glatt á hjalla. Það jók á spennuna í upphafi að Friðrik Ólafsson komst ekki strax til leiks þar sem hann var á ferðalagi úti á landsbyggðinni að loknu lokaprófi í lögfræði. Meðal áhorfenda gekk sú saga að enginn vissi hvar hann væri niður kominn og óljóst hvort hann kæmist á mótið. Friðrik birtist þó að lokum og náði góðum árangri.

Þetta mót var mun sterkara en annað mótið og erlendu gestirnir voru flestir mjög þekktir í skákheiminum. Mótið vakti strax mikla athygli og áhorfendur kunnu vel að meta skemmtilega taflmennsku.

Friðrik var hér í hlutverki Tals á fyrsta mótinu að því leyti, að hann tefldi af miklu fjöri og hugmyndaauðgi. Sigurskákir hans við stórmeistarana Uhlmann og Byrne þóttu ævintýralegar. Með sigri í skák sinni gegn Sovétmanninum Vasjukow hefði Friðrik sigrað mótið. Áhorfendur voru farnir að rekja skákina í vinning fyrir Friðrik, en hann var kominn í tímahrak og lék 24. dxe5 í stað Dxf7 sem hefði innsiglað sigur. Vasjukow átti svarleik sem sneri skákinni við og hafði vinninginn af Friðrik.

Hinn nýbakaði ungi Íslandsmeistari Guðmundur Sigurjónsson stóð sig með miklum ágætum á þessu móti og ávann sér fyrri hluta alþjóðlegs meistaratitils. Rómaður var sigur hans gegn ungverska stórmeistaranum Szabó, enda átti fyrir hinum unga Guðmundi að liggja að sigra glæsilega á Reykjavíkurmótinu tveimur árum síðar.

 

 

 

IV.

Gleðilegast og óvæntast við þetta mót var að Guðmundur Sigurjónsson, sem síðar varð annar Íslendingurinn til að hljóta stórmeistaratign í skák, sigraði mótið með glæsibrag og án þess að tapa skák. Guðmundur sigraði hvern meistarann á fætur öðrum, þar á meðal Friðrik og Hecht með eftirminnilegum hætti, og kom mönnum skemmtilega á óvart. Jón Kristinsson stóð sig einnig mjög vel og vann tvo stórmeistara, þá Matulovic og Friðrik. Þá reyndist Matulovic erfitt að kyngja jafntefli við Benóny Benediktson sem náði óborganlegri þráskák þegar öll sund virtust lokuð.

Guðmundur Arnlaugsson var sem fyrr skákstjóri og nú reyndi verulega á myndugleik hans, þar eð einn hinna erlendu gesta og sá sem fyrirfram var talinn sigurstranglegastur, Matulovic, reyndist dyntóttur í meira lagi. Magnaðar sögur gengu af framferði keppandans en Guðmundur var fastur fyrir og lét hann ekki komast upp með neitt múður.

Getraunir voru í fyrsta sinn starfræktar í sambandi við skákmót hér á landi. Þá var það nýmæli tekið upp að algert reykingabann var á skákstað og var ráðinn sérstakur maður til að fylgja því eftir. Eins og ljósmyndir frá fyrri mótum gefa til kynna var þetta mikil breyting á andrúmslofti mótanna – í orðsins fyllstu merkingu. Það leið hins vegar ekki á löngu þar til reykingabannið var borið fyrir borð á komandi Reykjavíkurskákmótum og skákmenn byrjuðu brátt að púa hver fram í annan að hætti Tals.

 

 

V.

Þetta var skákárið mikla á Íslandi og strax í byrjun árs var skákunnendum boðið upp á sterkasta skákmót sem haldið hafði verið hérlendis. Reykjavíkurskákmótið árið 1972 var verðugur undanfari þess sem sumarið átti eftir að bera í skauti sér. Mótið var haldið í Útgarði, nýjum veitingastað í Glæsibæ. Aðstaða áhorfenda var ekki eins góð og oft áður og salurinn fremur óhentugur til slíks mótshalds, en keppnin var bráðskemmtileg.

Af erlendum gestum voru þrír stórmeistarar, en ungu mennirnir Andersson, Timman, Tukmakow og Keene voru allir á hraðri leið til metorða. Þeir urðu síðar heimsfrægir stórmeistarar. Sumir hinna erlendu gesta reyndust vera einkar ljúfir og vinsælir persónuleikar, ekki síst þeir Stein, Timman og Hort. Leiðinlegt atvik kom þó fyrir er einn hinna erlendu stórmeistara, Gheorghiu, reyndi að versla með vinninga sína.

Nú skiptu þeir aftur um hlutverk Friðrik Ólafsson og Guðmundur Sigurjónsson. Fríðrik var í 7. sæti eftir níu umferðir en vann síðan hvern sigurinn á fætur öðrum og varð efstur á mótinu ásamt tveimur öðrum eftir æsilega keppni. Skákir Friðriks við Hort og Tukmakov voru tvísýnar og áhorfendur stóðu á öndinni af spenningi er keppendur lentu í ofsalegu tímahraki. Kliður fór um salinn er Friðrik lék 19. Rhf4 á móti Tukmakow – og taugar Tukmakow brustu. Friðrik innsiglaði sigur sinn í mótinu með því að vinna Timman í fallegri sóknarskák í síðustu umferð. 

 

VI.

Mótið fór fram að Kjarvalsstöðum og það var sérstakur heiður að fá Bronstein og Smyslov til landsins. Báðir voru þeir í hópi jöfra skáklistarinnar á þessum tíma, annar fyrrverandi heimsmeistari og hinn hafði komist á þröskuldinn, en Botvinnik hafði haldið heimsmeistaratitlinum með því að ná jöfnu á móti Bronstein í einvígi, 12-12.

Smyslov var maður þessa móts, ekki eingöngu vegna sigurgöngu sinnar sem hélst út allt mótið, heldur ekki síður framkomu sinnar vegna, sem í senn var höfðingleg og lítillát. Íslensku keppendunum vegnaði hins vegar ekki vel. Friðrik hafði ekki teflt lengi og Guðmundur byrjaði illa, en sótti í sig veðrið er á leið. Keppendur voru reyndar sextán í upphafi, en Benóný Benediktsson hætti keppni eftir þrjár umferðir.

Það er staðreynd, þótt nöturleg sé, að Leif Ögaard frá Noregi, sem fyrirfram var talinn til minni spámanna, vann alla Íslendingana nema Júlíus Friðjónsson, og varð hálfum vinningi ofar en efstu Íslendingarnir. Slíkur afgerandi sigur Norðmanns á Íslendingum átti ekki eftir að endurtaka sig á Reykjavíkurskákmóti fyrr en mörgum árum síðar, og flestir vildu gleyma því sem fyrst. 

 

VII.

Hér tefldu í fyrsta sinn á Reykjavíkurskákmóti ungir skákmenn sem síðar urðu máttarstólpar í íslensku skáklífi, Helgi Ólafsson, Margeir Pétursson og Haukur Angantýsson. Þá setti hinn aldni snillingur Miguel Najdorf sterkan svip á mótið. Hann varð strax vinsæll með eindæmum, bæði fyrir skemmtilega taflmennsku og eftirminnilega nærveru.

Um tíma var nokkur óvissa hvort af mótshaldi yrði. Svæðismót hafði verið haldið í Reykjavík síðla árs 1975 og ekki var talið skynsamlegt að ráðast í framkvæmd Reykjavíkurmótsins strax eftir áramótin eins og venja hafði verið. Mótshaldinu var því frestað til hausts. Taflfélag Reykjavíkur stóð að mótinu og báru mótshaldarar nokkurn ugg í brjósti um að tap yrði á fyrirtækinu. Þegar upp var staðið þurfti vissulega að skrá tap í bókhaldið, en mótið var líflegt og æsispennandi frá upphafi og hin besta skemmtan. Teflt var í samkomusal Hagaskóla í annað sinn.

Mótið var jafnara en áður og hart barist um hvern vinning. Spennan var í hámarki strax frá upphafi þar sem engum einum tókst að skapa sér örugga forystu.

Hápunktur mótsins var að sjálfsögðu sá að Friðrik Ólafsson stóð uppi sem sigurvegari. Guðmundur Sigurjónsson og ekki síst Ingi R. Jóhannsson stóðu sig einnig með mikilli prýði og komust upp á milli erlendu stórmeistaranna. Þetta var mikil uppreisn æru fyrir íslenska skákmenn eftir slælega frammistöðu á mótinu 1974.

Yfirdómari mótsins var sem fyrr Guðmundur Arnlaugsson, en skákstjórar voru þeir Jóhann Þórir Jónsson og Jón Þ. Þór. Eitthvað munu þeir Najdorf og Antonshin hafa hrellt þá þremenninga með skærum sín á milli.

VIII.

Hótel Loftleiðir var nú vettvangur Reykjavíkur-mótsins í fyrsta sinn. Skáksamband Íslands stóð að mótinu og gerði m.a. nokkrar róttækar breytingar á tímamörkum og nefndi hið nýja keppnisform Icelandic Modern.

Nýtt fyrirkomulag hafði í för með sér verulega fækkun biðskáka, en tímahrak gat nú komið tvívegis fyrir í fyrstu setu. Áhorfendur kunnu vel að meta þessa breytingu, en keppendum féll hún misvel í geð og ýmsir töldu styttan umhugsunartíma koma niður á taflmennskunni. Í könnun sem Guðmundur Arnlaugsson aðaldómari mótsins gerði meðal keppenda að móti loknu kom hins vegar fram að þrátt fyrir læti um breytt fyrirkomulag taldi meirihluti keppenda þessa nýjung mótshaldara jákvæða.

Sú nýbreytni var einnig tekin upp að greitt var fyrir tapaða skák og var upphæðin 15 dollarar á skák, en 10 dollarar voru greiddir fyrir jafntefli. Fyrir unna skák fékk keppandi 50 dollara. Ýmsum fannst þetta hlálegt fyrirkomulag, en með þessu vildu skipuleggjendur hvetja menn til að tefla til úrslita fremur en að semja um jafntefli í ótefldum skákum.

Þótt hinir erlendu gestir hafi verið afburðaskákmenn og ágætir í alla staði, átti Bent Larsen alltaf sérstakan sess í hjarta íslenskra skákunnenda. Á þessu móti kom í ljós að vinsældir hans höfðu ekkert dofnað og flestir spáðu honum sigri í upphafi móts. Annar keppandi varð og fljótlega mjög vinsæll, en það var Walter Browne, sigurvegari mótsins. Hann lenti ávallt í miklu tímahraki og skemmti áhorfendum með ýmsum tiltektum og uppákomum, en utan þess var hann talinn einkar geðþekkur.

Þetta mót var vafalaust sterkasta Reykjavíkurmót sem til þessa hafði verið haldið, en tíu af fjórtán keppendum voru stórmeistarar. Íslendingarnir ungu, sem börðust af hörku gegn sér sterkari skákmönnum og lærðu dýrmæta lexíu, náðu síðar allir stórmeistaratign.

 

IX.

Skáksamband Íslands og Taflfélag Reykjavíkur stóðu sameiginlega að mótinu að þessu sinni og mjög var til þess vandað. Teflt var á Loftleiðahótelinu sem var orðinn vinsæll vettvangur skákmóta, en ljóst var að erfitt yrði að endurvekja stemmninguna frá 1978.

Allt gekk eins og í sögu með ytri ramma mótsins, en ýmislegt gekk á við að raða upp keppendalistanum. Eftir nokkuð japl, jaml og fuður, deilur á fundum um verðleika manna og skákstíl, símtöl og skeytasendingar út og suður tókst að fá til mótsins níu sterka erlenda skákmeistara. Keppendur voru 14 talsins og allir titilhafar. Sovéska skáksambandið hafði lofað að senda tvo keppendur til leiks, en í stað þess að hingað kæmu þeirra frægustu skákmeistarar var sendur til landsins alls óþekktur Rússi, Kupreichik að nafni. Ýmsir urðu í fyrstu fyrir vonbrigðum yfir því að svo lítt þekktur skákmaður kæmi frá heimsveldinu sjálfu. Fljótt kom hins vegar í ljós að í Kupreichik var að finna hinn áhugaverðasta skákmann. Hann varð ekki einungis vinsælasti skákmaður áhorfendapallanna fyrir hvassan stíl sinn og líflegan, heldur varð hann óvæntur sigurvegari mótsins. Árangur hans færði honum stórmeistaratitil að launum.

Margeir Pétursson stóð sig best Íslendinga og mátti vel við una. Margeir tapaði aðeins fyrir Torre og Helga og lenti í 6.-7 sæti ásamt stigahæsta keppanda mótsins, Torre.

 

 X.

Öll fyrri Reykjavíkurskákmót hingað til höfðu átt það sameiginlegt að þátttaka var takmörkuð við tólf, fjórtán eða sextán keppendur. Nokkrum útvöldum erlendum meisturum var boðið hverju sinni og sterkustu íslensku skákmennirnir öttu kappi við þá á hefðbundnu lokuðu móti.

Nú var mótið hins vegar opnað til að gefa sem flestum tækifæri til að vera með. Opnunin var þó ekki alger. Markið var sett við 2300 alþjóðleg skákstig fyrir útlendinga, en Íslendingum nægðu 2200 skákstig. Þá voru verðlaun hækkuð til muna. Stjórn Skáksambands Íslands tefldi djarft með þessum breytingum og stjórnarmönnum hlýtur að hafa létt í sinni er þátttökutilkynningar fóru að streyma að, bæði frá sterkum erlendum skákmönnum og vösku liði landans. Er mótið hófst voru 54 mættir til leiks, 31 útlendingur og 23 Íslendingar.

Menn hnutu hins vegar ekki beinlínis um þekktu nöfnin í hópi hinna erlendu meistara. Adorjan frá Ungverjalandi hafði teflt í áskorendaeinvígi og hlaut að vera sterkur skákmaður og vitað var að Lev Alburt hefði flúið Sovétríkin endur fyrir löngu. En hvaða fuglar voru þetta með skrýtnu nöfnin, þessi Abramovic og Sahovic, Gurevich og Shamkovic að ekki sé talað um Bajovic og Ivanovic og alla hina – og hvar voru  Larsen, Timman, Kortsnoj og Browne?

Mótið hófst í stórhríð og stormbeljanda. Það fór og svo að Friðrik Ólafsson tefldi glæsilega skák við Zaltsman frá Bandaríkjunum í fyrstu umferð og vann skákina á ævintýralegan hátt. Þegar á leið kom í ljós að hver umferð bauð upp á dramatísk augnablik, fórnir sem stóðust og aðrar sem byggðust á bjartsýninni einni. Það var mikið um að vera.

Sigurvegari mótsins varð Lev Alburt. Hann var vel að sigrinum kominn, en varð þó að heyja harða baráttu við Júgóslavann Abromovic um sigurinn. Í þriðja sæti varð Gurevich frá Sovétríkjunum.

Bestum árangri Íslendinga náði Guðmundur Sigurjónsson, hann hlaut sjö vinninga ásamt sjö erlendu gestanna og varð í 4.-11. sæti. Guðmundur tapaði aðeins einni skák gegn Adorjan, en vann t.d. Júgóslavíumeistarann Ivanovic í síðustu umferð mótsins.

Í flestum hinna fyrri Reykjavíkurmóta hafði sérkennilega persónuleika rekið á fjörurnar og ýmist skemmt áhorfendum eða hrellt skákdómara eftir atvikum. Þetta mót var þar engin undanteknin og sérstaklega urðu Júgóslavarnir Sahovic og Abromovic mönnum eftirminnilegir.

Ekki verður skilist við þetta mót án þess að geta um veglega aukaútgáfu Skákar á ensku, sem kom út eftir hverja umferð – alls ellefu blöð – og varð mótsstjórn til vegsauka ekki síður en ritstjóranum Jóhanni Þóri Jónssyni.

 

XI.

Árið 1984 markaði upphaf íslensku skáksprengjunnar þegar ungu íslensku skákmeistararnir unnu hvern skáksigur eftir annan. Árangur þeirra á þessu Reykjavíkurmóti staðfesti að vænta mátti mikilla tíðinda á næstu árum. Ný öld var að renna upp þar sem hópur íslenskra skákmeistara barðist um efstu sætin á alþjóðlegum vettvangi. Friðrik Ólafsson og Guðmundur Sigurjónsson gátu stoltir lagt arfleifðina í hendur þessara ungu manna.

Jóhann Hjartarson og Helgi Ólafsson náðu efsta sæti á mótinu ásamt hinni öldnu kempu Samuel Reshevsky, sem var 72 ára er mótið fór fram. Jóhann og Helgi hlutu báðir stórmeistaraáfanga fyrir árangur sinn á mótinu. Margeir  Pétursson og Jón L. Árnason voru hálfum vinningi á eftir þeim í næstu sætum og segir það sína sögu um taflmennsku fjórmenninganna.

Mótið, sem fór fram á Hótel Loftleiðum, var mikil skákveisla og lyftistöng íslenskri skák. Það voru ekki aðeins sigurvegararnir sem athygli vöktu. Í hverri umferð virtust gerast undur og stórmerki. Sævar Bjarnason gerði t.d. í 1. umferð jafntefli við stigahæsta mann mótsins Sovétmanninn E Geller, einn sterkasta skákmann heims um árabil og átti reyndar rakinn vinning í skákinni. Benóný ruglaði stórmeistararnn Balashov í ríminu með frumlegri taflmennsku og hélt jafntefli, Karl Þorsteins vann Byrne og gerði síðar jafntefli við Christiansen, Baoashov og Lobron.

Reykjavíkurmótin höfðu nú rækilega sannað gildi sitt fyrir íslenskt skáklíf og ekki varð aftur snúið.

 

XII.

Metþátttaka var á mótinu er 74 keppendur hófu leikinn og var þetta sterkasta Reykjavíkurmótið fram til þess tíma. Mótshaldið var nú orðið meiriháttar fyrirtæki, sem krafðist gífurlegs undirbúnings. Hótel Loftleiðir urðu aftur fyrir valinu sem mótsstaður.

Í keppendahópnum voru óvenjumargir heimsfrægir skákmeistarar, en vænst þótti skákunnendum um að sjá aftur þá Mikael Tal og Bent Larsen. Stór hópur sterkra Bandaríkjamanna setti ekki síst svip á mótið og óvenjumargir Norðurlandabúar voru einnig mættir til leiks, en mótið var haldið í kjölfar liðakeppninnar milli Bandaríkjanna og Norðurlanda.

Keppnin varð geipijöfn og hörð og sigurvegarinn nokkuð óvæntur. Sá var júgóslavneski stórmeistarinn Predrag Nikolic sem hlaut átta vinninga. Jóhann Hjartarson var í hópi þeirra sex sem næstir komu. Mjög var fylgst með síðustu skák mótsins en þar áttust við Nick de Firmian og Nikolic. Með jafntefli hefði de Firmian tryggt sér hlut í sigurverðlaununum ásamt einum sjö öðrum, en hann tapaði á endanum til mikillar gremju fyrir stóran hóp fólks. Þar á meðal var meistari Tal sem þótti lítið til varnartækni Bandaríkjamannsins koma og lét það óspart í ljós. Jóhann Hjartarson og Helgi Ólafsson börðust allan tímann á toppnum og nú tapaði Helgi aðeins einni skák – fyrir Jóhanni.

 

 

XIII.

Að þessu sinni voru stúlkur voru í fyrsta sinn meðal keppenda á Reykjavíkurskákmóti. Áður hafði tvisvar mátt nota orðið í eintölu, en nú mættu þrjár stúlkur til leiks í fylgd foreldra sinna, hinar frægu ungversku Polgar systur, Zsuzsa, Zsofia og Judit. Það mun væntanlega verða Akureyringnum Tómasi Hermannssyni minnisstætt að hann sigraði litlu Judit Polgar í fyrstu umferð mótsins. Þeir Davíð Ólafsson og Dan Hansson gátu og stært sig af því að sigra Zsofiu, en engum Íslendinganna tókst hins vegar á þessum tíma að sigra Zsusu, sem síðar varð heimsmeistari kvenna.

Ungur íslenskur piltur náði 6 vinningum í mótinu og hélt jöfnu við hvern stórmeistarann á fætur öðrum. Þar var mættur Hannes Hlífar Stefánsson á sitt annað Reykjavíkurskákmót. Margeir Pétursson var meðal efstu manna sem oft áður.

Allt tal í upphafi um að þetta mót væri ekki nógu sterkt í samanburði við mótið tveimur árum áður þagnaði er líða tók á keppni og hver glæsiskákin eftir aðra var tefld. Fjölmargir áhorfendur fengu hina bestu skemmtun. Það var því oft glatt á hjalla á göngum Loftleiðahótelsins og í skákskýringasal þar sem mörg spekin flaug milli manna. Með þessu móti var enn farið inn á nýjar brautir með fjáröflun, en mótshaldið var orðið óframkvæmanlegt án öflugs styrktaraðila.

Jón L. Árnason vann yfirburðasigur á mótinu. Hann sigraði m.a. Lev Polugaevsky og gerði jafntefli við stigahæsta mann mótsins, Sovétmanninn M. Gurevich. Þetta var glæsilegur íslenskur sigur.

XIV.

Fjórtánda Reykjavíkurskákmótið var haldið í Skákheimilinu að Faxafeni 12, en mótið var 60 ára afmælismót Búnaðarbanka Íslands. Þetta var í fyrsta sinn sem íslenska skákhreyfingin gat boðið til alþjóðlegs skákmóts í eigin húsasölum. Þótt margir söknuðu andrúmsloftsins á Loftleiðahótelinu bærðist stolt í brjóstum þeirra sem lengst höfðu barist fyrir því að skákmiðstöð yrði að veruleika. Hinir erlendu skákmeistarar höfðu orð á því að líklega væru þessi húsakynni þau veglegustu sem þeir þekktu í eigu skákfélags eða skáksambands.

Keppendur voru 72, margir heimsfrægir meistarar, en aftur naut mótið þess, að það var haldið strax á eftir hinum einstæða stórveldaslag, þar  sem tíu manna lið frá Sovétríkjunum, Bandaríkjunum,  Englandi og Norðurlöndum áttust við á sama stað. Skákþyrstir Íslendingar létu þetta tækifæri ekki fram hjá sér fara.

Níu keppendur urðu efstir og jafnir með 7 ½ vinning, þar á meðal Jón L. Árnason og Helgi Ólafsson, sem var efstur á stigum og þar með sigurvegari mótsins. Athyglisverð var frammistaða Vestfirðingsins Halldórs G. Einarssonar sem sigraði m.a. Sovétmanninn Rasúvaév og gerði jafntefli við Tisdall, Browne og Geller – sem enn var kominn til Íslands. Líklega má Arnar Þorsteinsson frá Akureyri einnig vera nokkuð ánægður með jafnteflið í 1. umferð gegn Gata Kamsky, sem síðar varð einn af sterkustu stórmeisturum heims. Þá er sigur Tómasar Björnssonar gegn pólska stórmeistaranm Alexanders Wojkiewicz eftirminnilegur, en Wojkiewicz tók tapinu allt annað en karlmannlega.

Mikill Íslandsvinur, Norðmaðurinn Arnold Eikrem, var aðaldómari mótsins eins og á mörgum alþjóðlegu skákmótunum á Íslandi um þetta leyti.

XV.

Jóhann Hjartarson og Alexei Shirov deildu með sér sigrinum á XV. Reykjavíkurskákmótinu, Apple-skákmótinu svokallaða. Grikkinn Kotronias náði þriðja  sæti. Aftur var teflt í Skákheimilinu Faxafeni.

Eftir mörg vel heppnuð opin mót var nú ákveðið að breyta til og hafa mótið tólf manna lokað mót líkt og í árdaga. Þessi ákvörðun var gagnrýnd af mörgum. Engu að síður varð þetta mót stórskemmtilegt, ekki síst vegna vel heppnaðs keppendavals. Þar voru baráttuglaðir ungir kappar í hverju sæti, fimm þeirra erlendir skákmeistarar með Lettann Alexei Shirov í fararbroddi. Vonast var til að einhver hinna þriggja íslensku alþjóðlegu skákmeistara sem í mótinu tefldu næðu áfangasigrum, en því miður tókst það ekki.

Aðaldómari mótsins var Ólafur Ásgrímsson sem seinasta áratug hefur verið einn afkastamesti skákdómari Íslendinga. Ekki þurfti Ólafur þó að beita sér mikið á þessu móti, allt gekk snurðulaust fyrir sig enda lokuðu mótin mun auðveldari í framkvæmd en þau opnu.

XVI.

Eftir miklar vangaveltur var ákveðið að hafa mótið opið á nýjan leik, þótt fjárhagsleg afkoma væri  óljós. 62 skákmeistarar hófu taflið í Faxafeninu, þar af helmingur erlendir frá sautján löndum. Biðskákir voru í fyrsta sinn aflagðar á Reykjavíkurskákmóti og tímamörkum breytt. Í annan stað var mótið stytt um tvær umferðir. Frá 1982 höfðu opnu Reykjavíkurskákmótin ætið verið ellefu umferðir, en níu umferða opin skákmót var orðin meginregla erlendis og þetta var nú reynt hér. 

Á þessu móti vakti hópur rússneskra skákmeistara sem fæstir þekktu hvorki haus né sporð á mikla athygli. Þeir reyndust kunna mikið fyrir sér í skákfræðunum og tveir þeirra stóðu uppi sem sigurvegarar í lokin ásamt þeim þriðja.

Óhætt er að fullyrða að íslensku kapparnir ungu, þeir  Hannes Hlífar Stefánsson, 21 árs, og Helgi Áss Grétarsson, 17 ára, hafi verið hetjur XVI. Reykjavíkurskákmótsins. Hannes Hlífar átti glæsilegt mót og deildi sigrinum með Rússunum Pigusov og Zvjaginsev, sem náðu að smjúga sér upp að hlið Hannesar á lokasprettinum. Hannes skaut mörgum frægum meistaranum, bæði innlendum sem erlendum, ref fyrir rass og hlaut fyrsta sætið verðskuldað með sókndjarfri og líflegri taflmennsku. Mótið var fjörugt á að horfa og aðsókn áhorfenda góð, ekki síst fyrir frækna framgöngu ungu íslensku meistaranna. Með ótrúlegum endaspretti náði Helgi Áss Grétarsson óvænt 3.- 5. sæti ásamt Bandaríkjamanninum Nick de Firmian, og skildi líkt og Hannes eftir sig slóð fallinna stórmeistara. Eftir fimm umferðir hafði hann hlotið 2,5 vinninga, en gerði sér lítið fyrir og vann fjórar síðustu skákirnar, fyrst Ítalann Barillaro, svo stórmeistarna Rashkovsky, Shabalov og Kengis.

Minni spámennirnir íslensku nýttu sín færi vel þegar þeir hér komust í feitt og óvænt úrslit urðu í nær hverri umferð. Þannig gerðist það strax á fyrsta degi, að Benedikt Jónasson sigraði rússneska stórmeistarann Pigusov, en sá varð einn af sigurvegurum mótsins og Davíð Ólafsson vann pólska stórmeistarann Wojtkiewicz.  

XVII.

 

Íslandsvinurinn Davíð Bronstein mætti til leiks á XVII. Reykjavíkurskákmótið. Þrátt fyrir háan aldur lék hann á als oddi og tefldi afar frísklega á mótinu, sérstaklega í byrjun. Það voru hins vegar ungir Norðmenn sem komu, sáu og sigruðu. Simen Agdestein og Jonathan Tisdall gerðu garðinn frægan og tóku sigurlaunin, en leyfðu þó hinum hægláta Bosníumanni Predrag Nikolic að deila þeim með sér. Þeir hlutu allir 7 vinninga. Paul van der Sterren og Nikolaj Borge komu næstir með 6½ vinning.

 

Viðureign sigurvegaranna tveggja Nikolic og Agdestein reyndist ein skemmtilegasta skák mótsins. Í rimmu þeirra komu upp miklar og hvassar flækjur en með reyfarakenndum leikjum náði Agdestein gagnsókn á móti þungu áhlaupi Nikolic. Báðir keppendur lentu í harkalegu tímahraki og leikir jafnt sem taflmenn flugu á báða bóga. Eftir miklar sviptingar stóð Agedestein uppi sem sigurvegari, en Agdestein varð síðar rómaður fyrir að vera þjálfari Magnusar Carlsen.

 

Önnur eftirtektarverð skák mótsins var barátta Margeirs Péturssonar við Hannes Hlífar Stefánsson. Hannes hafði hvítt og fórnaði peði fyrir skjóta liðskipan. Margeir lagði allt undir til að sigra, en með ákveðni og seiglu náði Hannes undirtökunum og sigraði með eftirminnilegum hætti. Það var þó Margeir en ekki Hannes sem varð efstur íslenskra skákmanna á mótinu, en hann endaði í 8. sæti með 6 vinninga alls.

 

Mótið var fyrst í röð norrænna bikarmóta Nordic Grand Prix, en heiðurinn af þeim átti Einar S. Einarsson, fyrrverandi forseti S.Í. Áhorfendur voru fjömargir í öllum umferðum.

 

 

 

 

 

XVIII.

 

Taflfélag Reykjavíkur stóð eitt að mótshaldinu að þessu sinni, en í keppendahópnum voru 22 stórmeistarar og 7 alþjóðlegir meistarar af 15 þjóðernum.

 

Í fyrstu umferð voru ýmis óvænt úrslit. Bragi Halldórsson tók enska stórmeistarann Tony Miles til bæna og átti gjörunnið tafl, en stórmeistaranum tókst við illan leik að snúa því til jafnteflis. Þá sigraði Jóhann Ragnarsson stigaháa alþjóðlega meistarann Slavco Cicak og Tómas Björnsson gerði jafntefli við þýska stórmeistarann Kindermann. Áskell Örn Kárason byrjaði mótið með látum og gerði jafntefli við danska stórmeistarann Curt Hansen og hollenska stórmeistarann Nijboer.

 

Bandarísku keppendurnir tveir, Larry Christiansen og Nick de Firmian, tóku hins vegar fljótlega afgerandi forystu og héldu henni til loka. Hvorugur tapaði skák en hálfur vinningur skildi þá að í lokin. Christiansen hlaut 7½ vinning og de Firmian 7. Skákstíll Christiansen var í senn brögðóttur og glannalegur, en reynsla hans og útsjónarsemi tryggðu honum sigurinn.

 

Helgi Ólafsson tapaði ekki skák en var of friðsamur til að eiga möguleika á efstu sætum. Einna jákvæðasti árangur Íslendinga á þessu móti var hjá Jóni Viktori Gunnarssyni sem hlaut 5½ vinning, en sex andstæðingar hans voru stórmeistarar.

 

Magnaðasta skák mótsins var hins vegar tefld af Þresti Þórhallssyni stórmeistara, en skák hans við Ivan Sokolov var hreint augnayndi. Þröstur átti besta mót íslensku keppendanna, tefldi líflega og af miklum krafti og innblæstri.

 

 

 

 

XIX.

 

Mótið fór nú fram í fyrsta skipti í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur. Þátttakendur á mótinu voru 76, þar af 41 erlendur skákmaður. Í hverri umferð voru tefldar æsispennandi skákir og var mikil stemmning á meðal áhorfenda og í skákskýringasalnum, enda fljótlega ljóst að Hannes væri í miklum ham.

 

Í byrjun tóku Short, Kortsnoj og Hannes Hlífar forystuna, ásamt McShane, Gritsjúk og Bu. Það var svo í 6. umferð, sem Hannes Hlífar fór hamförum á skákborðinu. Hann vann McShane í ótrúlega flókinni og spennandi skák, í næstu skák vann hann auðveldan sigur á Sokolov og í þeirri áttundu vann hann Kortsnoj í úrslitaskák mótsins, eftir æsispennandi baráttu og taugatitring. Hannes hafði þá náð eins vinnings forskoti, sem hann hélt með jafntefli við Gritsjúk í síðustu umferð. Í 2. - 8. sæti komu Short, Kortsnoj, Gritsjúk, Wojtkiewicz, Miles, Bu og Ehlvest, með 6½ vinninga hver.

 

Sigur Hannesar Hlífar á mótinu er eitt mesta afrek sem íslenskur skákmaður hefur unnið. Árangur Hannesar var upp á 2788 Eló-stig og hann var heilum vinningi fyrir ofan næstu menn, sem allir voru heimsþekktir stórmeistarar. Sigurganga Hannesar vakti mikla og verðskuldaða athygli víða um heim.

 

Um frammistöðu Hannesar í mótinu skrifaði rússneski stórmeistarinn Sergei Shipov: „Skákstíll Hannesar minnir mig á Kortsnoj, það er sami krafturinn, bjartsýnin og yfirvegunin. Farið yfir skák þeirra á mótinu og leggið blað yfir nöfnin. Það er ómögulegt að geta sér til, hvor hefur hvaða lit. Ég vona að íslenski stórmeistarinn standi nú við upphafið á löngum og sigursælum skákferli.”

 

Ungu mennirnir Sigurður Páll Steindórsson og Guðmundur Kjartansson létu einnig að sér kveða á mótinu. Sigurður Páll fékk helming mögulegra vinninga og vann m.a. Helga Ólafsson. Þá var það sérstök upplifun að horfa á 2600-stiga stórmeistarann Evgenij Agrest svitna af erfiðleikum við að reyna að vinna Guðmund Kjartansson, 12 ára, en það tókst honum loks seint og um síðir. Það er ástæða til að geta frammistöðu fleiri Íslendinga, svo sem Arnars Gunnarssonar, Björns Þorfinnssonar, Sigurðar Daða Sigfússonar, Tómasar Björnssonar, Stefáns Kristjánssonar og Jóns Árna Halldórssonar. Þá tefldi Benedikt Jónasson vel gegn sterkum andstæðingum. 

 

XX.

 

Aftur var teflt í Ráðhúsi Reykjavíkur. Þátttakendur á mótinu voru 72, þar af 16 stórmeistarar og 6 alþjóðlegir meistarar. Í fyrsta sinn var lögð sérstök áhersla á að fá konur til keppni á mótinu og settu 11 skákkonur skemmtilegan svip á mótið. Í þeim hópi var búlgarska stúlkan Antoneta Stefanova, sem síðar varð heimsmeistari kvenna í skák. 

 

Hinn 19 ára Stefán Kristjánsson stimplaði sig rækilega inn sem einn af bestu skákmeisturum landsins á XX. Reykjavíkurskákmótinu. Stefán tryggði sér lokaáfanga að alþjóðlegum titli með sigri á Hannesi Hlífari í sögulegri skák í 8. umferð, en tókst ekki að halda jöfnu gegn Kornejev í þeirri níundu. Hann var því aðeins hálfum vinningi frá því að ná sínum fyrsta áfanga að stórmeistaratitli. Stefán vann stórmeistarann, Henrik Danielsen, og gerði jafntefli við kollega hans, Helga Áss, Neverov, Brodsky og Rowson. Helgi Áss Grétarsson tefldi einnig af miklum krafti á mótinu og var í banastuði, en tap fyrir Ehlvest í 8. umferð kom í veg fyrir sigur hans. Helgi endaði meðal efstu manna í mótinu, varð í 3.-6. sæti ásamt stórmeisturunum Neverov, Rowson og Ivanov. Bragi Þorfinnsson missti af lokaáfanga alþjóðlegs titils þegar hann tapaði fyrir Miezis í síðustu umferð, en hann hafði áður m.a. unnið þýska stórmeistarann, Eric Lobron, og gert jafntefli við Brodsky og Hillarp-Persson. Arnar E. Gunnarsson átti sína möguleika, en tapaði tveim síðustu skákunum. Aðrir Íslendingar stóðu sig margir vel, svo sem Þorsteinn Þorsteinsson framan af móti.

 

Mótinu lauk með sigri stórmeistaranna, Jaan Ehlvest og Oleg Kornejev sem fengu 7 vinninga hvor í 9 skákum.

 

 

XXI.

 

Haldið var upp á 40 ára afmæli Reykjavíkurskákmótanna með sérlega veglegum hætti í Ráðhúsi Reykjavíkur. Mótið var afar vel skipað og keppendur voru alls 76. Þar af voru 34 stigaháir stórmeistarar. Einn umtalaðasti skákmeistari heims, hinn 13 ára Magnus Carlsen, kom til landsins og keppti á sínu fyrsta Reykjavíkurskákmóti.

 

Sigurlaun þessa veglega afmælismóts voru m.a. boðsæti á feiknasterku Atskákmóti sem haldið var á NASA við Austurvöll þar sem bæði Kasparov og Karpov mættu til leiks. Kraftmiklar skákkonur settu einnig sterkan svip á mótið. Þar á meðal voru Irina Krush, Regina Pokorna og Tatiana Kononenko, en af öllum kvenmeisturum mótsins vakti hin bandaríska Anna Zatonskih mesta athygli. Hún tefldi afar hvasst og fórnaði drottningum í anda Tals.

 

Eftir harða baráttu blasti sú óvenjulega lokastaða við að átta skákmeistarar deildu fyrsta sætinu, með 6½ vinning hver. Það voru þeir Drejev, Epishin, Sutovsky, Timman, Aronjan, Nataf, Ehlvest og alþjóðlegi meistarinn, Robert Markus. Fjölmargir aðrir markverðir meistarar mættu til leiks, svo sem gamla kempan Oleg Romanishin frá Úkraínu, kínverski undradrengurinn Xiangzhi Bu.

 

Hinn ungi og efnilegi Dagur Arngrímsson stóð sig einna best Íslendinga. Hannes Hlífar og Helgi Ólafsson voru heillum horfnir, en Hannes gat þó huggað sig við það að sigra Magnus Carlsen, og er það fyrst og eini sigur Íslendings á Norðmanninum unga til þessa.

 

Að móti loknu var sem fyrr segir blásið til stórglæsilegs atskákmóts, Reykjavik Rapid, þar sem viðureign Garry Kasparovs og Magnusar Carlsen vakti mikla eftirvekt. Kasparov og Short háðu æsispennandi úrslitaeinvígi í beinni útsendingu í sjónvarpi og eftir miklar sviptingar stóð Kasparov uppi sem sigurvegari.

 

 

föstudagur 24 maí 05 2019
Nýjustu fréttir
Íslandsmót öldunga 65 ára og eldri verður haldið laugardaginn 10....
Fyrri hluti Íslandsmóts skákfélaga 2016-2017 fer fram dagana 29. sept...
Lenka...
Lenka Ptácníková (2136) varð í gær Íslandsmeistari...
Fréttir frá Skák.is